Hvað er CTF?

CTF er skammstöfun sem stendur fyrir Capture the Flag. CTF keppnir snúast um það að leysa verkefni þar sem markmiðið er að finna falin flögg (stuttur textabútur) sem sannar það að verkefnið hafi verið leyst. Verkefnin geta verið mjög fjölbreytt, en eiga það flest sameiginlegt að tengjast tölvuöryggi á einhvern hátt. Dæmi um verkefni eru t.d.

  • Brjóta gallaða eða veika dulkóðun (crypto)
  • Misnota þekkta veikleika í vefkerfum (web)
  • Leita eftir ummerkjum um óeðlilega hegðun í miklu magni gagna (forensics)
  • Leita eftir viðkæmum upplýsingum sem óvart hafa endað á Netinu (OSINT/Open-source intelligence)

Er CTF fyrir mig?

Hefur þú gaman af því að leysa þrautir eða ráðgátur? Finnst þér, t.d., gaman að taka þátt í flóttaleikjum (e. escape rooms). Ert þú áhugasamur/áhugasöm um hvernig hlutirnir virka undir yfirborðinu? Ef svarið við einhverjum þessara spurninga er „já“, þá er líklegt að þú hafir gaman af CTF keppnum. Það er þó bara ein leið til að svara þeirri spurningu fyrir víst, það er að prófa!

En er þetta ekki bara fyrir gáfað fólk?

Alls ekki! Það fæðist enginn smiður, fiðluleikari eða stærðfræðingur. Færni er ekki meðfædd, heldur er afrakstur mikillar þjálfunar. Þó að það sé vissulega þannig að sumir hlutir liggi betur fyrir ákveðnum einstaklingum en öðrum, þá þýðir það ekki að það sé tilgangslaust að læra eitthvað sem liggur ekki vel fyrir manni.

Langflestir geta byggt upp færni, á hvaða sviði sem er, með þjálfun. Það eina sem þarf er áhugi. Þannig ef þú ert forvitin(n) eða áhugasmur/áhugasöm þá skaltu ekki hika við að prófa!

Af hverju að taka þátt?

Fyrst og fremst af því CTF keppnir eru ótrúlega skemmtilegar! En, þar að auki þá kemur þú til með að læra og öðlast færni á mörgum sviðum. Þessi þekking mun nýtast þér í nánast öllu sem þú munt taka þér fyrir hendur í framtíðinni, sérstaklega ef þú ert að íhuga nám eða vinnu sem tengist tölvuöryggi eða tölvunarfræði.

Hverjir mega taka þátt?

Til að teljast gjaldgengur til þátttöku í Landskeppni Gagnaglímunnar og sem fulltrúi íslands í Hakkarakeppni Evrópu þarf þátttakandi að vera íslenskur ríkisborgari og ekki eldri en 25 ára (miðað við síðasta dag ársins, þ.e. fæddur á árinu eða seinna).

Hakkaraskólinn er opinn öllum, óháð aldri og þjóðerni, en aðeins gjaldgengir þátttakendur fá boð í Landskeppnina.

Allt í lagi, þetta hljómar áhugavert, en hvernig byrja ég?

Þá er Hakkaraskólinn fyrir þig!